2 Apríl 2013 12:00
Íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri situr nú í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á tilraun hans til stórfellds fíkniefnasmygls til landsins.
Það var 25. janúar síðastliðinn sem tollgæsla stöðvaði för mannsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann var þá að koma frá Berlín. Falin í botni ferðatösku hans fundust um 2.4 kíló af amfetamíni. Maðurinn var þegar handtekinn og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan. Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins, sem er langt komin.
Umræddur maður hefur áður komið við sögu lögreglu, en langt er um liðið síðan. Fleiri hafa verið yfirheyrðir vegna málsins, en enginn handtekinn.