13 Mars 2013 12:00
Sérsveit ríkislögreglustjóra, Víkingasveitin, var við æfingar í Hvalfirði föstudaginn 8. mars þegar maður hrapaði 50 metra í Vestursúlu og var hætt kominn með opið beinbrot á læri. Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur á að skipa menntuðum sjúkraflutningamönnum og er alltaf með fullkominn sjúkrabúnað meðferðis við æfingar og í verkefnum. Bráðatæknar frá Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins sjá um síþjálfun sérsveitarmanna, æfa með sveitinni árið um kring og fylgja henni í þau verkefni sem þurfa þykir.
Þegar tilkynning barst um slysið í Vestursúlu greindu sérsveitarmenn fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra frá staðsetningu sinni, búnaði, samsetningu hópsins og buðu fram aðstoð sem var þegin. Stjórnanda sérsveitarhópsins var falin vettvangsstjórn í umboði Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu. Þá hófst gangan sem tók rúma tvo tíma við erfið skilyrði. Björgunarmenn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Sérsveitinni og Landsbjörgu komu á slysavettvang um fjögurleytið en þá hafði hinn slasaði legið í fjallinu í rúma tvo tíma og var orðinn nokkuð kaldur. Vel gekk að hlúa að hinum slasaða og var hann fluttur á börum niður fjallið, settur í sjúkrabíl frá SHS sem flutti hann að þyrlu Landhelgisgæslunnar sem komin var á vettvang með lækni. Þyrlan flaug með hinn slasaða á Landspítalann í Fossvogi.