21 Desember 2012 12:00
Brot á öllu landinu hafa ekki verið færri í heildina síðan skráning þeirra á landsvísu hófst árið 1999. Brotin voru 57.021 árið 2011, sem er 24% fækkun miðað við meðaltal á síðustu þremur árum á undan. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Afbrotatölfræði 2011. Skýrslan er gefin út af ríkislögreglustjóra og þar eru birtar staðfestar tölur um afbrot fyrir allt landið árið 2011. Gögn fyrir skýrsluna voru tekin út í maí 2012 en það er gert til að tryggja að rannsókn mála frá árinu 2011 sé að mestu lokið hjá lögreglu þegar úttekt fer fram.
Í skýrslunni kemur einnig fram að umferðarlagabrotum hefur fækkað mest. Þau voru 40.343, sem er 27% fækkun miðað við meðaltal á árunum 2008 til 2010. Hegningarlagabrotum fækkaði einnig, en þau voru 12.639. Þegar litið er til þróunar síðustu ár má sjá að hegningarlagabrot voru flest árið 2009 þegar þau voru rétt tæplega 16.000.
Fíkniefnabrot voru fleiri á árinu 2011 en síðustu ár á undan, þar af jókst hlutfallslega framleiðsla fíkniefna mest. Árið 2011 lagði lögregla og tollgæsla hald á rúmlega 78.000 e-töflur, tæp 32 kg af amfetamíni og tæp 30 kg af maríhúana.
Stærstur hluti hegningarlagabrota átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu, eða 72%. Hins vegar voru hlutfallslega flest hegningarlagabrot skráð Suðurnesjum miðað við íbúafjölda, eða 461 brot á hverja 10.000 íbúa. Hlutfallslega flest auðgunarbrot á íbúa voru skráð á höfuðborgarsvæðinu, líkt og síðustu tvö ár á undan, en hlutfallslega flest ofbeldisbrot miðað við íbúafjölda í Vestmannaeyjum, sem má rekja að mestum hluta til þjóðhátíðar.
Skýrslan er aðeins gefin út á rafrænu formi í ár. Hún er aðgengileg hér og á vef ríkis-lögreglustjóra, www.rls.is, undir liðnum Tölfræði/rannsóknir á vinstri valrönd.