14 Nóvember 2012 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af karlmanni á fimmtugsaldri, þar sem hann var inni á skemmtistað í umdæminu. Grunur lék á að maðurinn væri með fíkniefni í vörslum sínum. Í sígarettupakka sem hann var með í jakkavasanum fannst hvítt efni, um þrjú grömm, sem talið er vera fíkniefni. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann viðurkenndi að hann ætti efnin, sem hann kvaðst hafa keypt skömmu áður.
Féll af reiðhjóli og rotaðist
Ung stúlka féll af reiðhjóli í Keflavík í gær og rotaðist. Töluverð hálka var á götum bæjarins þegar óhappið varð. Lögregla og sjúkralið á Suðurnesjum voru kvödd á slysstað. Stúlkan var ekki með öryggishjálm þegar hún datt og var hún flutt með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar var ákveðið að flytja hana á Landspítalann vegna höfuðáverka sem hún hafði hlotið við fallið.
Brutust inn í á annan tug spilakassa
Brotist var inn á veitingastaðinn Rána í Keflavík í fyrrinótt. Hinir óboðnu gestir brutust jafnframt inn í alla spilakassana á staðnum, á annan tug talsins
Verksummerki þykja benda til þess að þeir sem þarna voru að verki hafi notað barefli við athæfið. Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið.