1 Október 2012 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum hefur undanfarna daga haft afskipti af allmörgum ökumönnum sem ekki hafa verið til fyrirmyndar í umferðinni. Einn þeirra, rúmlega tvítugur karlmaður, talaði í síma án handfrjáls búnaðar, var ekki í bílbelti, hafði trassað að færa bílinn til endurskoðunar og var ökuréttindalaus. Tveir til viðbótar voru ekki með beltin spennt. Þá hafa númer verið klippt af sjö bifreiðum að undanförnu, þar sem þær voru ótryggðar eða höfðu ekki verið færðar til skoðunar á tilskildum tíma.
Handtekinn eftir vímuakstur
Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina rúmlega tvítugan ökumann þar sem hann var grunaður um ölvun við akstur. Hann sat í ökumannssæti með bílinn í gangi, en drap á honum þegar lögregla kom á vettvang. Hann kvaðst ekki hafa verið að aka bílnum, en breytti síðan framburði sínum eftir að á lögreglustöð var komið, og játaði brot sitt. Rökstuddur grunur er um að maðurinn hafi einnig verið undir áhrifum ýmissa fíkniefna. Hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum ævilangt.