15 Október 2012 12:00
Fimm sextán ára stúlkur og ein sautján ára reyndust vera inni á skemmistað í Reykjanesbæ þegar lögreglan á Suðurnesjum var með hefðbundið eftirlit á skemmtistöðum um helgina. Sumar þeirra framvísuðu skilríkjum sem þær höfðu fundið á víðavangi, að eigin sögn. Stúlkurnar voru allar færðar á lögreglustöð og haft samband við foreldra þeirra sem komu og sóttu þær. Að því búnu fóru lögreglumenn aftur á umræddan skemmtistað til að ganga endanlega úr skugga um að ekki væru fleiri undir lögaldri þar inni. Svo reyndist ekki vera.
Klemmdist fastur undir bíl
Ökumaður í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum missti stjórn á bíl sínum á Reykjanesbraut á móts við Voga, með þeim afleiðingum að bíllinn valt og klemmdist maðurinn undir honum. Óhappið varð með þeim hætti að bifreiðinni var ekið ofan í mönina milli akbrauta og kastaðist hún yfir veginn og staðnæmdist á hægri hlið, norðan megin vegarins. Ökumaðurinn reyndist vera skorðaður undir hurðarkarmi bílsins. Læknir var kvaddur á staðinn, svo og sjúkrabifreið og tækjabíll. Notaður var loftpúði til að lyfta bílnum upp og skreið ökumaður þá óstuddur undan honum. Meiðsl hans voru talin minni en óttast hafði verið í fyrstu.