15 Október 2012 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í gær ökumann sem reyndist vera sviptur ökuréttindum og var að auki grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann viðurkenndi neyslu á kannabis og amfetamíni. Deginum áður hafði lögregla handtekið annan ökumann, sem einnig hafði verið sviptur ökuréttindum og var grunaður um fíkniefnaakstur. Hann viðurkenndi neyslu á fimm tegundum fíkniefna. Þriðji ökumaðurinn var einnig stöðvaður og handtekinn. Hann var sviptur og var rökstuddur grunur um neyslu hans á fíkniefnum. Mennirnir voru látnir lausir að loknum sýna- og skýrslutökum.
Kveikt í ruslatunnum við húsvegg
Lögreglunni á Suðurnesjum var síðastliðinn föstudag gert viðvart um að eldur væri laus við íbúðarhúsnæði í Njarðvík. Þegar lögreglumenn komu á staðinn kom í ljós að tvær ruslatunnur höfðu verið teknar af hefðbundnum stað framan við húsið og settar upp við vegg þess fyrir aftan það. Þar hafði verið kveikt í þeim. Húsráðendur urðu varir við eldinn og náðu að færa tunnurnar frá veggnum áður en illa færi. Slökkvilið kom síðan á vettvang og slökkti eldinn.