18 Október 2012 12:00
Íslenskur karlmaður var í fyrradag stöðvaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við hefðbundið eftirlit tollgæslunnar vegna gruns um að hann væri með fíkniefni í fórum sínum. Maðurinn ,sem er um fertugt, reyndist hafa falið fíkniefnin í umbúðum undir tungunni. Talið er að um kókaín sé að ræða. Lögreglan á Suðurnesjum gerði vettvangsskýrslu í málinu, haldlagði fíkniefnin og að því búnu var maðurinn frjáls ferða sinna. Hann á yfir höfði sér refsingu fyrir brot sitt.
Sviptur og vímaður á leið á Selfoss
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ökumann um tvítugt á Suðurstrandarvegi vegna gruns um að hann æki undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn viðurkenndi neyslu á amfetamíni og kannabis. Með honum í bílnum var rúmlega þrítugur karlmaður og kváðust þeir félagar vera á leið á Selfoss að sækja vin sinn. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð til sýna- og skýrslutöku. Hann reyndist, auk fíkniefnaaksturins, vera sviptur ökuréttindum. Annar ökumaður, sem lögreglan hafði afskipti af í morgun, reyndist vera sviptur ökuréttindum.
Sjúkraflugvél í vélarbilun
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í vikunni tilkynning frá öryggisgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þess efnis að flugvél í sjúkraflugi hefði þurft að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna vélarbilunar. Vélin var að koma frá Manchester og var á leið til Kanada. Tveir voru í áhöfn hennar og með henni voru sjúklingur, aðstandandi hans svo og læknir. Sjúkraflutningamenn sáu um að flytja sjúklinginn á sjúkrahús.