22 Október 2012 12:00
Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af karlmanni á þrítugsaldri, þar sem hann var staddur fyrir utan skemmtistað í Keflavík. Grunur lék á að hann hefði fíkniefni í fórum sínum. Spurður hvort svo væri svaraði hann því játandi og framvísaði meintu amfetamíni. Hann var handtekinn og tekin af honum skýrsla. Maðurinn, sem margoft hefur komið við sögu hjá lögreglu, á yfir höfði sér ákæru fyrir ofangreint brot, svo og fleiri sem hann hefur á samviskunni.
Stöðvaður með fölsuð skilríki
Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði á föstudag erlendan ferðamann í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem hafði framvísað fölsuðum skilríkum. Maðurinn sem var að koma frá Kaupmannahöfn framvísaði grísku ferðaskilríki, sem lögreglumenn sáu að átt hafði verið við. Maðurinn var færður á lögreglustöð, þar sem hann viðurkenndi að hann væri alls ekki grískur heldur annarrar þjóðar. Málið er í rannsókn.
Borgari kyrrsetti ölvaðan ökuþór
Húsráðandi í Reykjanesbæ kyrrsetti ölvaðan ökuþór þar til lögreglan á Suðurnesjum kom á vettvang í nótt. Ökumaðurinn hafði þá ekið upp á og yfir kantstein í Grindavík, þaðan eftir grasflöt og utan í járnstaur, sem heldur uppi gervihnattardiski. Fyrir framan járnstaurinn voru grjóthnullungar sem köstuðust í íbúðarhús, sem hann stóð við og skemmdu járnklæðningu á því. Húsráðandinn heyrði mikinn hvell og hávaða. Þegar hann kom út sat ökumaðurinn enn í bílnum en tveir farþegar létu sig snarlega hverfa. Maðurinn var handtekin og færður á lögreglustöð. Hann var með þrjár fullar bjórdósir í úlpuvösum sínum.