14 September 2012 12:00
Talsvert var um umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Ökumaður sem var að aka inn á bifreiðastæði steig á bensíngjöf í stað þess að hemla, með þeim afleiðingum að bifreiðin fór yfir gangstétt og utan í aðra bifreið á stæðinu. Þá skullu tveir bílar saman á Reykjanesbraut eftir að öðrum þeirra hafði verið ekið inn á veginn í veg fyrir hinn. Fjarlægja þurfti þá af staðnum með kranabíl. Þriðja óhappið varð á gatnamótum á Vatnsnesvegi, þegar tveir bílar rákust saman. Loks varð árekstur í Keflavík og fóru báðir ökumennirnir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þar sem þeir kenndu eymsla. Ökutækin voru fjarlægð með tækjabifreiðum.
Fjórir réttindalausir í akstri
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í vikunni afskipti af fjórum ökumönnum sem allir reyndust vera réttindalausir við aksturinn. Tveir þeirra, karlmaður og kona voru færð á lögreglustöð, grunuð um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þau höfðu, ásamt þriðja ökumanninum, verið svipt ökuréttindum. Fjórði ökumaðurinn var með útrunnið ökuskírteini.