21 September 2012 12:00
Hitaveiturör féll á mann í fyrradag með þeim afleiðingum að hann handleggsbrotnaði. Slysið varð í Svartsengi þar sem verið var að hífa rörið á vagn með hjólaskóflu. Reipi voru bundið í báða enda þess og því lyft með þeim hætti. Tveir menn voru síðan við sitt hvorn enda þess til að stjórna ferðinni. Annað reipið slitnaði og rörið, sem er um tvö tonn að þyngd og sextán metra langt, lenti á öðrum manninum og braut upphandlegg hans. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þaðan á Landspítala. Báðir mennirnir voru með öryggishjálm og í öryggisskóm.
Flugfarþegi fór úr mjaðmarlið
Lögreglunni á Suðurnesjum var í fyrradag tilkynnt um að flugvél frá British Airways þyrfti að lenda á Keflavíkurflugvelli þar sem veikur farþegi væri um borð í henni. Í ljós kom að farþeginn, þýsk kona, hafði orðið fyrir því að fara úr mjaðmarlið í vélinni. Hún hafði fyrir nokkrum árum farið í mjaðmaliðsskipti. Konan var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.
Klippt af átta bílum
Lögreglan á Suðurnesjum klippti í vikunni númer af átta bifreiðum, sem ekki höfðu verið færðar til skoðunar á réttum tíma, voru ótryggðar eða hvoru tveggja. Þá voru afskipti höfð af nokkrum ökumönnum sem voru ekki með ljósabúnað bifreiða sinna í lagi, eða notuðu þokuljós, sem er óheimilt nema undir sérstökum kringumstæðum. Lögregla beinir þeim tilmælum til bifreiðaeigenda að hafa lögboðinn búnað ökutækja sinna í lagi.