23 Ágúst 2012 12:00
Henti sígarettu og velti bíl
Ökumaður á þrítugsaldri missti stjórn á bifreið sinni í fyrradag, þegar hann var að henda sígarettu út um þaklúgu bílsins með þeim afleiðingum að bíllinn valt tvo hringi og stórskemmdist. Sauma þurfti á annan tug spora í höfuð ökumannsins og allmörg í hægri hendi hans. Við rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á vettvangi kom í ljós að bíllinn hafði senst á þriðja tug metra út fyrir Garðskagaveg, þar sem óhappið varð, og hafnað þar á hjólunum. Maðurinn var með útrunnið ökuskírteini.
Tekinn með kannabisefni
Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gær, eftir að grunur hafði vaknað um að hann væri með fíkniefni í fórum sínum. Þegar lögregla knúði dyra barst megn kannabislykt frá íbúðinni sem jókst um allan helming þegar húsráðandi opnaði. Maðurinn gekkst við því að hafa kannabisefni í fórum sínum og framvísaði hann því. Hann heimilaði leit í húsnæðinu en ekkert fleira saknæmt fannst. Skýrsla var tekin af manninum og honum sleppt að því loknu.
Hjólbarði undan rútu skall á bíl
Það óhapp varð á Reykjanesbrautinni í gær að hjólbarði losnaði undan rútu, sem ekið var áleiðis til Reykjavíkur. Hjólbarðinn kastaðist yfir veginn og lenti á afturhorni nálægrar bifreiðar. Engin slys urðu á fólki vegna þessa atviks.