28 Júní 2012 12:00
Í morgun kl.11.08 knúði maður dyra á lögreglustöðinni á Egilsstöðum. Hann kvaðst hafa komið með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar frá Danmörku fyrr um morguninn og óskaði eftir hæli á Íslandi. Maðurinn var skilríkjalaus en sagði til nafns og kvaðst vera frá Eritríu fæddur árið 1983. Haft var samband við Útlendingastofnun sem mun útvega honum talsmann en hælisskýrsla mun verða tekin af manninum fyrir sunnan. Hann mun verða fluttur til Reykjavíkur og þaðan til Reykjanesbæjar þar sem hann mun verða vistaður meðan á hælismeðferð stendur.