30 Maí 2012 12:00
Tveir lögreglumenn fóru í göngueftirlit á Selfossi síðdegis í gær, þriðjudag. Þeir höfðu með í för fíkniefnahundinn Buster. Þegar þeir komu að húsi einu sveigði hundurinn af leið og gaf vísbendingu um að hann fyndi lykt af fíkniefnum. Bankað var á dyr og kom umráðamaður hússins til dyra. Lögreglumennirnir gerðu leit og fundu tvær rúmlega hálfs metra kannabisjurtir í ræktun. Húsráðandi var handtekinn og yfirheyrður. Plöntur, lampi og annar búnaður sem notaður við ræktunina var tekið. Plönturnar voru sendar til greiningar og styrkleikamælingar. Hinn handtekni viðurkenndi ræktun sem væri til eigin neyslu.
Hnakkar og reiðtygi fundust í húsleit á Stokkseyri síðdegis í gær, þriðjudag. Ástæða húsleitarinnar var grunur lögreglu um að þar væri hugsanlega þýfi úr hesthúsum sem undanfarið hefur verið brotist inní á Selfossi og í Hveragerði. Við rannsókn málsins kom í ljós að hnakkarnir voru úr innbroti í Hveragerði. Karl og kona voru handtekin í tengslum við málið og viðurkenndu þau að hafa stolið hluta munanna. Þau voru látin laus að loknum yfirheyrslum.