31 Ágúst 2011 12:00

Á morgun fimmtudaginn 1. september 2011 sameinast efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og embætti sérstaks saksóknara við gildistöku laga nr. 82 frá 23. júní 2011 um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, með síðari breytingum.

Við gildistöku laga nr. 82/2011 er rannsóknardeild ríkislögreglustjóra sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot lögð niður en deildin var sett á fót við stofnun embættis ríkislögreglustjóra þann 1. júlí 1997.

Þá flyst ákæruvald og þar með sókn þeirra mála sem þegar sæta ákærumeðferð fyrir dómstólum af hálfu ríkislögreglustjóra frá embætti ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara.

Ríkislögreglustjóri mun þar til annað verður ákveðið áfram annast móttöku tilkynninga á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Mál sem flytjast

Af hálfu ríkislögreglustjóra hefur mikil undirbúningsvinna farið fram á undanförnum mánuðum vegna sameiningarinnar. Á þessum tímamótum telst málastaða efnahagsbrotadeildar vera góð. Alls flytjast 85 mál frá deildinni til embættis sérstaks saksóknara.  Af þessum 85 málum eru 79 til meðferðar í deildinni og sex fyrir dómstólum. Í meðfylgjandi töflum má sjá um hvers konar mál er að ræða, sakarefni, aldur og stöðu:

Tafla 1

Tegund máls*

Hjá efnahags-brotadeild

Fyrir dómstólum

Brot á lögum um gjaldeyrismál

19

Brot á samkeppnislögum

1

Fjárdráttur

12

Fjársvik

6

1

Skilasvik

5

1

Skjalafals

1

Skattalagabrot

30

3

Umboðssvik

2

1

Verðbréf, lög um verðbréfaviðskipti

3

Samtals

79

6

 *Tegund/heiti máls tekur mið af kæru en getur breyst við rannsókn og/eða ákærumeðferð. Hvert mál getur varðað fleiri brotaflokka en einn.

Af þeim 30 málum sem varða skattalagabrot voru 24 þeirra í tengslum við undirbúning sameiningarinnar send embætti sérstaks saksóknara með bréfi ríkislögreglustjóra 29. júní 2011. 

Tafla 2

Ártal kæru

Hjá efnahags-brotadeild

Fyrir dómstólum

2004

1

2005

1

2006

1

2007

1

2008

2

2009

9

2

2010

23

2011

45

Samtals

79

6

Fjárveitingar og starfsmenn

Fjárveitingar til efnahagsbrotadeildar færast frá ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara og nema þær alls um 124 mkr. á ársgrundvelli. Rekstrarfé ríkislögreglustjóra lækkar sem því nemur, en á undanförnum árum hefur verið skorið niður í rekstri ríkislögreglustjóra um samtals 27%. Þessi tilflutningur fjárheimilda kemur þar til viðbótar.

Auk þeirra starfsmanna sem á undanförnum árum hafa flust frá ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara flytjast nú 14 stöðugildi. Ríkislögreglustjóri hefur skipað og sett sjö lögreglumenn frá ríkislögreglustjóra við embætti sérstaks saksóknara frá 1. september nk. Einn lögreglumaður hefur verið færður frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa þrír sérfræðingar efnahagsbrotadeildar verið ráðnir til embættis sérstaks saksóknara. Einn lögfræðingur deildarinnar hefur verið ráðinn til ríkissaksóknara.

Upplýsingar

Frá og með 1. september nk. er öllum þeim sem upplýsingar þurfa vegna mála sem hafa verið í efnahagsbrotadeild bent á að leita til embættis sérstaks saksóknara, Skúlagötu 17, 101 Reykjavík, s. 444-0150, netfang  postur@serstakursaksoknari.is.

Kærum vegna ætlaðra skatta- og efnahagsbrota eða fyrirspurnum er varða slík mál skal framvegis beint til embættis sérstaks saksóknara.

Reykjavík, 31. ágúst 2011

Ríkislögreglustjórinn

 
Fréttatilkynninguna má nálgast hér.

Fréttatilkynninguna má nálgast hér.