2 Júlí 2011 12:00
Þrír gistu fangageymslu hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt. Einn aðili var handtekinn á skemmtistað bæjarins þar sem hann hafði tekið upp hníf og hótað fólki með honum. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu. Annar aðili sem var í miklu annarlegu ástandi var handtekinn þar sem hann hafði slegið aðila með hafnarboltakylfu. Hann var færður á lögreglustöðina og í fangageymslu. Aðili sem fyrir árásinni varð var fluttur á heilsugæslu til skoðunar. Ekki var um alvarlega áverka að ræða. Árásaraðili þessi er sá hinn sami er gisti fangageymslu sl. nótt fyrir innbrot í verslun í bænum en hann hefur ítrekað komið við sögu lögreglu. Um miðnætti fékk lögreglan tilkynningu frá skipstjóra sem væri að koma með ölóðan mann í land sem hafði gengið berserksgang um borð í skipinu þannig að snúa varð skipinu til lands og fjarlægja hann frá borði. Þá kærði aðili mann fyrir líkamsárás en hún átti sér stað fyrir utan skemmtistað í bænum. Mörg önnur verkefni komu á borð lögreglunnar í Vestmannaeyjum í nótt vegna ölvunarástands fólks. Mikill fjöldi fólks var í bænum sl. nótt á öldurhúsum bæjarins en skemmtistaðir voru opnir til kl. 06:00 í morgun.