29 Júlí 2011 12:00
Ríkislögreglustjóri í samvinnu við lögregluembætti landsins og tollgæsluna stendur fyrir hertu eftirliti gegn sölu, meðferð og neyslu ólöglegra fíkniefna um verslunarmannahelgina. Eftirlitið er til viðbótar við aðra löggæslu og er ætlað að efla og styrkja eftirlit og afskipti tengd fíkniefnum á þeim stöðum sem þörf er talin á. Tvö teymi rannsóknarlögreglumanna og tollvarða munu starfa á vegum ríkislögreglustjóra, lögregluembættunum til aðstoðar.
Enn fremur mun ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæslan, í samvinnu við lögregluembættin, hafa samstarf um umferðareftirlit úr lofti með þyrlu en flogið verður yfir helstu þjóðvegum landsins. Tækjabúnaður verður meðferðis til eftirlits með hraðakstri ökutækja.
Þá munu lögreglumenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra verða með lögregluliðunum í Vestmannaeyjum og á Akureyri um verslunarmannahelgina.
Lögreglan óskar öllum góðrar verslunarmannahelgar og beinir því til þeirra sem hyggja á ferðalög að sýna tillitssemi og aðgát.