30 Júlí 2011 12:00
Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum síðustu nótt og þurfti lögregan að sinna hinum ýmsum verkefnum. Fimm líkamsárásarmál voru tilkynnt til lögreglunnar í nótt. Einn aðili var fluttur með sjúkraflugi til Rvk. eftir slagsmál í Herjólfsdal. Ekki er vitað um nánari meiðsli hans. Einhverjir aðrir urðu sárir eftir slagsmál og þurftu aðhlynningu hjá heilsugæslu. Fjöldi fíkniefnamála voru ellefu og er nú heildarfjöldi fíkniefnamála orðinn tuttugu frá fimmtudegi. Öll þessi mál eru svo kölluð neysluskammtar en í einu máli var haldlagt um 10 grömm af amfetamíni sem fannst við húsleit í íbúðarhúsi í bænum. Þrír gistu fangageymslu, einn þeirra vegna fíkniefnamáls og að vera með hótanir við lögreglumenn. Hinir tveir vegna ölvunarástands. Einn aðili var kærður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Lögreglan áætlar að gestir á þessari hátíð séu tíu- til ellefuþúsund. Eitthvað mun bætast við í dag með Herjólfi og flugi og einnig á morgun. Veðurspá fyrir daga þá sem eftir eru að hátíðinni er með þeim hætti að gert er ráð fyrir rigningaskúrum en annars mildu veðri.