31 Júlí 2011 12:00
Skemmtanahald á hátíðarsvæði í Herjólfsdal fór vel fram síðastliðna nótt og var mun rólegra hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum en nóttina á undan. Engin stærri mál komu upp. Þrír gistu fangageymslu, en það var að þeirra eigin ósk þar sem þeir munu ekki hafa fundið tjaldið sitt.
Átta fíkniefnamál komu upp síðdegis í gær og nótt og er málafjöldi fíkniefnamála á þessari hátíð nú orðin 29 mál sem er svipað og undanfarin ár. Flest málin eru minniháttar, en í einu málinu fann Luna fíkniefnahundur lögreglunnar í Vestmannaeyjum 10 grömm af amfetamíni og 3 grömm af hassi. Aðili viðurkenndi að eiga efnin og að hafa ætlað þau til sölu á hátíðarsvæðinu.
Þrír ökumenn voru kærðir vegna ölvunar við akstur og einn vegna réttindaleysis.
Lögreglan áætlar að gestafjöldi á hátíðinni verði um fjórtanþúsund þegar brekkusöngur verður í Herjólfsdal í kvöld. Herjólfur mun sigla 5 ferðir til Eyja í dag og í fyrstu ferðinni í morgun voru 250 farþegar til Eyja. Einnig mun flugfélagið Ernir fara nokkrar ferðir í dag til Eyja.
Veður er nú þurrt og gott í Eyjum eftir vætusama nótt. Samkvæmt veðurspám getur brugðið til beggja vona í kvöld og nótt og líkur á talsverðum vindi.