6 Maí 2011 12:00
Síðastliðinn miðvikudag handtók lögreglan á Akureyri þrjá karlmenn á Siglufirði. Handtökurnar voru framkvæmdar í kjölfar rannsóknar sem snýr að dreifingu fíkniefna í Fjallabyggð. Á sama tíma var einn maður til viðbótar, búsettur í Reykjavík, færður til skýrslutöku þar. Tveir Siglfirðinganna voru grunaðir um að hafa í febrúar og mars á þessu ári tvisvar fengið fíknefni afhent af manninum sem búsettur er í Reykjavík. Þriðji Siglfirðingurinn var grunaður um að hafa flutt aðra sendinguna frá Reykjavík til Siglufjarðar. Samtals er talið að um hafi verið um að ræða 400 grömm af marijuana og að stærstur hluti efnanna hafi farið í dreifingu í Fjallabyggð. Á rannsóknartímanum hafði lögreglan á Akureyri tvisvar afskipti af öðrum Siglfirðingnum og haldlagði þá samtals um 25 grömm af marijuana hjá honum.
Við rannsókn málsins naut lögreglan á Akureyri aðstoðar fíkniefnadeildar lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu. Í aðgerð sem framkvæmd var í Reykjavík þann 14. apríl síðastliðin voru svo tveir mannana handteknir, Reykvíkingurinn og einn Siglfirðinganna sem hafði gert sér ferð suður. Í fórum mannanna fundust um 200 grömm af kannabisefnum auk smáræðis af kókaíni. Við húsleitir sem framkvæmdar voru í Reykjavík í framhaldinu voru haldlagðir peningar, hundruðir þúsunda, sem talið er fullvíst að sé greiðsla fyrir þau fíkniefni sem Siglfirðingarnir fengu afhent í mars og apríl. Auk þess fundust um 100 grömm af kannabisefnum til viðbótar við húsleitirnar.
Játningar liggja fyrir hjá þremur mannanna og telst málið upplýst. Samtals er því talið að Siglfirðingarnir hafa fengið um 600 grömm af marijuana afhent hjá manninum sem búsettur er í Reykjavík. Lögregla haldlagði sem fyrr segir rúm 200 grömm af efnunum og peninga sem taldir eru greiðsla fyrir hinn hlutann.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímsvarann 800-5005 og netfangið info@rls.is þar sem koma má á framfæri upplýsingum um fíkniefnamisferli, nafnlaust.