21 Apríl 2011 12:00
Aðfaranótt skírdags 21 apríl s.l. var gerður aðsúgur að lögreglumönnum er voru við skyldustörf í Vestmannaeyjabæ. Var þar um að ræða ungmenni er voru fyrir utan skemmtistaðinn Prófastinn í Vestmannaeyjum en þar fór fram dansleikur á vegum Framhaldsskóla Vestmannaeyja. Hugðust lögreglumennirnir taka áfengi af 16 ára unglingi er ólæti byrjuðu og veittist hópur ungmenna að lögreglumönnunum. Neyddust lögreglumennirnir til að beita kylfu og piparúða til að verjast aðgangnum. Var einn aðili handtekinn á staðnum og færður á lögreglustöð. Annar aðili er hafði sig í frammi gaf sig fram við lögreglu skömmu síðar. Voru foreldrar þeirra kallaðir á lögreglustöð og barnaverndaryfirvöldum tilkynnt um atburðinn. Enginn meiddist í átökunum.
Síðar þessa sömu nótt voru þrír aðilar, á tvítugsaldri, handteknir vegna gruns um að hafa valdið skemmdum á auglýsingaskilti fyrirtækis í Vestmannaeyjabæ. Þeir voru allir ölvaðir og voru þeir vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Skýrslutökur fóru fram fram í dag og viðurkenndu þeir verknaðinn og telst málið upplýst.