21 Febrúar 2011 12:00
Um klukkan fjögur í dag handtók lögreglan á Selfossi tvo karla á fertugsaldri og konu á þrítugsalri þar sem þau voru á stolinni bifreið við Litlu kaffistofuna. Fólkið kom á bílasölu á Selfossi eftir hádegi í dag. Konan fékk lykla að bifreið til að prófa. Eftir að hafa komist yfir bifreiðina sem er stór pallbifreið. Þremenningarnir komu við á bensínstöð í Hveragerði þar sem þau stálu rakvélablöðum sem þau svo buðu starfsmanni til kaups fyrir bensín á bifreiðina. Lögreglumenn höfðu síðan upp á bifreiðinni við Litlu kaffistofuna þar sem fólkið hafði gert hlé á ferðalaginu því mikil gufa fór að rjúka undan vélarhlífinni. Grunur leikur á að fólkið hafi allt verið undir fíkniefnaáhrifum og að konan og annar karlinn hafi ekið bifreiðinni til skiptis. Fólkið verður látið sofa úr sér áður en það verður yfirheyrt. Einstalingar þessir hafa margsinnis komið við sögu lögreglu og mjög nýlega fyrir innbrot í sumarbústaði og fleira.