25 Febrúar 2011 12:00
Samstaða er hjá ríkislögreglustjóra, sérstökum saksóknara og ríkissaksóknara um að sameina efnahagsbrotadeild og embætti sérstaks saksóknara.
Ríkislögreglustjóri hefur um árabil bent á að móta þurfi framtíðarfyrirkomulag rannsókna og ákærumeðferðar í skatta- og efnahagsbrotamálum og haft frumkvæði að umræðu um stöðu málaflokksins og hvernig efla megi hann og skipuleggja. Í því samband hefur verið bent á breytingar á stofnanakerfi ríkisins og einfaldari og skilvirkari leiðir en núverandi skipan gerir ráð fyrir og meðal annars horft til fyrirkomulags þessara mála í Noregi.
Í formála að ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2009 segir m.a. svo:
Eftir hrun bankanna haustið 2008 varð að ráði, í samstarfi við ríkislögreglustjóra og Sigurð Tómas Magnússon prófessor, að Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra flytti frumvarp til laga á Alþingi um embætti sérstaks saksóknara. Meðferð efnahagsbrotamála stendur á tímamótum með tilkomu þess embættis.
Ríkislögreglustjóri hefur ítrekað vakið athygli á því að endurskoða þyrfti fyrirkomulag skatta- og efnahagsbrotarannsókna. Ríkisendurskoðun hefur lagt til í stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra að kannaðir verði kostir og gallar þess fyrirkomulags að samræma starfsemi skattrannsóknarstjóra og efnahagsbrotadeildar vegna tvíverknaðar sem felst í fyrirkomulagi rannsókna alvarlegra skattalagabrota. Með tilkomu embættis sérstaks saksóknara þarf að ákveða framtíðarfyrirkomulag skatta- og efnahagsbrotamála og meta kosti þess að sameina efnahagsbrotadeild og sérstakan saksóknara og starfsemi annarra ríkisstofnana á þessu sviði.
Málaþungi í efnahagsbrotadeild hefur aukist verulega eftir bankahrunið en fjárveitingar hafa ekki fengist til að mæta þeirri þróun á sama tíma og auknar fjárveitingar eru til eftirlitsstofnana sem vísa málum til efnahagsbrotadeildar. Þrátt fyrir það hefur mikill árangur náðst við að vinna upp eldri mál samhliða nýjum vegna skipulagsbreytinga sem gerðar voru á starfsemi deildarinnar upp úr miðju ári 2010. Góð málastaða efnahagsbrotadeildar nú auðveldar sameiningarferli við sérstakan saksóknara (sjá fyrri fréttatilkynningar hér neðar).
Í sögulegu samhengi má geta þess að upphaf skatta- og efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra má rekja til þess að haustið 1985 var slíkri deild komið á fót hjá rannsóknarlögreglu ríkisins. Í upphafi störfuðu fjórir lögreglumenn við deildina sem höfðu aðgang að ráðgjöf löggilts endurskoðanda. Tilurð að stofnun deilarinnar var skýrsla nefndar sem dómsmálaráðherra skipaði sama ár til að gera tillögu um hraðari og skilvirkari meðferð skatta- og efnahagsbrota í dómskerfinu. Fyrstu árin heyrði deildin beint undir rannsóknarlögreglustjóra. Við niðurlagningu rannsóknarlögreglu ríkisins 1. júlí 1997 færðist deildin til embættis ríkislögreglustjóra. Frá sama tíma var skipaður saksóknari við deildina. Nú starfa við efnahagsbrotadeild 13 rannsakarar og fjórir lögfræðingar, þar af einn saksóknari.
Ríkislögreglustjórinn, 25. febrúar 2011
Fjölgun ákæra og hraðari málsmeðferð (7. jan. 2011)Skipulagsbreytingar í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra (10. jan. 2011)