19 Júní 2010 12:00
Klukkan 13:13 barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um mann í vandræðum við köfun í Silfru á Þingvöllum. Lögregla, sjúkralið, sérsveitarkafarar, kafarar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins svo og björgunarsveitir frá Árborg og Hveragerði fóru þegar á staðinn. Fyrstu upplýsingar voru þær að maður hefði verið að kafa í Silfru og hann feststs í gjánni og ekki getað losað sig. Klukkan 13:40 barst staðfesting um að manninum hefði verið náð upp úr gjánni meðvitundarlausum. Lífgunartilraunir hófust þegar í stað en báru ekki árangur. Læknir úrskurðaði manninn látinn.
Maðurinn var við köfun, ásamt franskri konu, í Silfru þegar óhappið varð. Ekki liggur með vissu fyrir um aldur mannsins en talið að hann hafi verið um þrítugt. Eftir er að fá staðfest hver maðurinn er og eins hverning konan er tengd honum en talið er að hún hafi verið unnusta hans. Konan var flutt með sjúkrabifreið á Landspítala þar sem henni verður veitt áfallahjálp. Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um aðdraganda slyssins en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi vinnur að rannsókn málsins sem er á frumstigi og lögregla býr ekki yfir frekari upplýsingum en hér koma fram. Lögreglan á Selfossi beinir þeim tilmælum til þeirra sem hugsanlega hafa orðið vitni að aðdraganda slyssins eða geta veitt aðar upplýsingar sem gætu skipt máli að hafa samband í síma 480 1010 sem er sími lögreglunnar á Selfossi.