28 Maí 2010 12:00
Fjórir ungir karlmenn voru í dag handteknir á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um fjölda innbrota í sumarbústaði í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Yngsti maðurinn er 15 ára og sá elsti 18 ára. Sá hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðald. Þess sama verður krafist á tvo til viðbótar. Yngsti meðlimurinn verður að tilstuðlan barnaverndaryfirvalda vistaður á Stuðlum.
Undanfarið hafa lögreglunni á Selfossi borist tilkynningar um innbrot í 38 sumarbústaði í Grímsnes- og Grafningshreppi og á Þingvallasvæðinu. Flatskjáum og ýmsum öðrum verðmætum var stolið úr þessum bústöðum. Síðustu innbrotin áttu sér stað í fyrrinótt en þá var gerð tilraun til að brjótast inn í Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum þar sem þrjár stórar rúður voru brotnar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær elsta manninn vegna þjófnaðar á pallbifreið. Sú bifreið eða sams konar hafði sést við Þjónustumiðstöðina um nóttina. Við húsleit á dvalarstað mannsins í Reykjavík fundust nokkrir flatskjáir og ýmsir munir sem rekja mátti til nokkurra sumarbústaðanna. Í framhaldi af þessari atburðarrás var ákveðið að leita félaga mannsins. Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu ásamt lögreglumönnum í sérsveit Ríkislögreglustjóra leituðu mannanna og það var um og upp úr hádegi í dag sem þeir fundust.
Þrír þessara manna voru fyrir um tveimur vikum handteknir af lögreglu á Selfossi vegna innbrota í tug bústaða við Sogið sem þeir gengust við. Þeir virðast eftir það hafa verið mjög virkir í innbrotum. Ljóst er að rannsóknin verður yfirgripsmikil og tímafrek þar sem yfirheyra þarf sakborninga og vitni, afla sakargagna og koma stolnum munum til brotaþola. Barnaverndaryfirvöld í heimabyggð sakborninga hefur verið gert viðvart og munu fulltrúar þeirra vera viðstaddir yfirheyrslur skjólstæðinga þeirra.
Lögreglan á Selfossi biður sumarbústaðaeigendur á fyrrgreindu svæði að huga að húsum sínum og tilkynna til lögreglunnar í síma 480 1010 verði þeir áskynja um að brotist hafi verið inn í bústaði þeirra.