22 Apríl 2010 12:00
S.l. þriðjudagskvöld framkvæmdi lögreglan á Akureyri viðamiklar húsleitir á þremur stöðum samtímis á Akureyri vegna gruns um fíkniefnamisferli. Hald var lagt 1,2 kíló af ætluðu amfetamíni og rúmlega 100 grömm af hassi. Einnig fannst rými sem ljóst er að hafði verið notað til kannabisframleiðslu og þar var lagt hald á tólf ljósalampa og annan búnað til slíkrar framleiðslu. Auk þessa var lagt hald á búnað til landaframleiðslu. Vegna rannsóknar málsins voru í gær tveir menn á þrítugs- og fimmtugsaldri úrskurðaðir í Hérðasdómi Norðurlands eystra í fimm og tíu daga gæsluvarðhald. Að aðgerðinni komu auk lögreglunnar á Akureyri menn frá sérsveit Ríkislögreglustjóra og lögreglumenn með tvo fíkniefnahunda frá Blönduósi og Ríkislögreglustjóra. Þetta er mesta magn fíkniefna sem lögreglan á Akureyri hefur lagt hald á í einni aðgerð. Málið er til rannsóknar og ekki unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.