21 Mars 2010 12:00

Almannavarnarnefnd hefur fundað með vísindamönnum og deildarstjóra Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra í morgun og í dag og í framhaldi af því hafa verið teknar eftirfarandi ákvarðanir:

Gossvæðið er hættusvæði og er lokað allri umferð.

Rýmingar sem verða í gildi í nótt:

Lagt er fyrir eigendur sumarhúsa á hættusvæðinu að dvelja ekki í húsum sínum í nótt.

Drangshliðardalur rýmdur.

Austur Eyjafjöll, ofan vegar :

Núpakot, Þorvaldseyri, Seljavellir og  Lambafell

Austur Eyjafjöll, neðan við veg:

Önundarhorn, Berjanes, Stóra Borg, Eyvindarhólar og Hrútafell. 

(Ystabæli, Miðbælisbakkar  engir íbúar þar)

Rýmingar í Fljótshlíð

Rauðuskriður og Fljótsdalur,

Rýmingar í Austur-Landeyjum:

Brú, Leifsstaðir

Öðrum rýmingum er þar með aflétt.  Enn er unnið á Neyðarstigi.  Rýmt verður að nýju ef forsendur breytast.

Takmarkanir á umferð:

Umferð hefur fram að þessu verið stöðvuð við Hellu og við Skóga.   Henni verður nú hleypt á Suðurlandsveg en tilmæli til fólks að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.   Eftirlitspóstar verða við Skóga og við Hvolsvöll.  Áhöfn bílsins við Skóga fylgir eftir rýmingu á bæjum undir A Eyjafjöllum.  Lögreglumaður og björgunarsveitarmaður frá Hvolsvelli fylgja eftir rýmingu í Fljótshlíð.

Umferð hefur gengið vel,  nú er hún meiri til vesturs eftir Suðurlandsvegi.  Lögregla er við eftirlit með hraða alla leið til Reykjavíkur.   Spáð er éljaveðri í Hellisheiði í nótt og því ekki ráðlegt að vera á ferð nema á bílum búnum til aksturs við slíkar aðstæður.

Umhirða búfénaðar:

Yfirdýralæknir og matvælastofnun mælist til þess við bændur að þeir fylgist vel með öskufalli vegna hættu sem búfénaði getur stafað af mengun sem því fylgir.

Vatnsveitur:

Þar sem bæir  eru með einkavatnsveitur er nauðsynlegt að fylgjast með gæðum vatns.  Tekin hafa verið sýni úr neysluvatnslind sem fæðir Vestmannaeyjabæ og reyndist það í lagi.  

Upplýsingar um öskufall:

Veðurstofan óskar sérstaklega eftir upplýsingum u öskufall frá gosstöðvunum ef þess verður vart.  Þetta er mikilvægt vegna ákvarðana varðandi flug innanlands og til og frá landinu.

Fyrirkomulag vaktar í nótt

Aðgerðarstjórn verður við störf á Hellu í nótt.  Samhæfingastöðin í Skógarhlíð verður einnig mönnuð.  Stöðug vakt er á jarðeðlissviði Veðurstofu á meðan á gosinu stendur. 

Næsti fundur, endurskoðun:

Almannavarnarnefnd mun koma saman að nýju kl. 09:00 í fyrramálið og fara yfir stöðuna þá.