11 Febrúar 2010 12:00
Fréttatilkynning.
1. Samstarfssamningur almannavarnanefndar og björgunarsveita.
Almannavarnarnefnd Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og björgunarsveitir á svæði 16 undirrituðu í dag samstarfsamning sín á milli. Markmið samningsins er að efla samvinnu þessara aðila m.a með því að byggja upp aðgerðastjórnstöð almannavarna og björgunarmála í húsnæði Flugbjörgunarsveitarinnar Hellu og vettvangsstjórnstöðvar í húsnæði björgunarsveitanna á Hvolsvelli, Vík og á Kirkjubæjarklaustri. Ennfremur er tilgangurinn að efla allar björgunarsveitir á svæðinu og gera þær enn betur í stakk búnar til að takast á við verkefni sín í almannavarnarástandi.
Björgunarsveitirnar hafa umsjón með fjarskiptum og útvega mannskap til að sjá um þau og setja upp tæknibúnað í aðgerðar- og vettvangsstjórnstöðvum. Þær skulu jafnframt hafa tiltækan hvers kyns búnað sem þarf í ofangreindum stjórnstöðvum en sá búnaður skal ákveðinn af báðum aðilum. Búnaður skal tekin út a.m.k. einu sinni á ári af samningsaðilum og að auki skal haldin ein stjórnunaræfing þar sem aðgerðar- og vettvangsstjórnir eru virkjaðar. Almannavarnarnefndin fjármagnar uppbyggingu stjórnstöðvanna en björgunarsveitirnar leggja fram húsnæðið endurgjaldslaust.
Almannavarnarnefndin sér um að í boði sé fræðsla fyrir aðgerðar- og vettvangsstjórnir og upplýsir björgunarsveitir reglulega um hlutverk þeirra í almannavörnum.
Formenn björgunarsveita, svæðisstjórn björgunarsveita og yfirstjórn almannavarna í héraði og lögreglustjóri skulu funda árlega og fara yfir sameiginleg málefni.
2. Styrkveitingar til björgunarsveita
Almannavarnarnefndin hefur lagt afar mikla áherslu á að efla björgunarsveitir í umdæminu og byggja upp starfsemi þeirra eins og kostur er og að stjórnstöðvar almannavarna séu í húsnæði sveitanna. Almannavarnanefnd hefur ákveðið í samræmi við ofangreindan samning að styrkja björgunarsveitir á svæðinu um kr. 2.500.000,- og skiptist það með eftirfarandi hætti milli sveitanna.
Flugbjörgunarsveitin Hellu kr. 500.000,-
Björgunarsveitin Stjarnan, Skaftártungu kr. 500.000,-
Björgunarsveitin Dagrenning, Hvolsvelli kr. 400.000,-
Björgunarsveitin Víkverji, Vík kr. 400.000,-
Björgunarsveitin Kyndill, Kirkjubæjarklaustri kr. 400.000,-
Björgunarsveit Landeyja kr. 100.000,-
Björgunarsveitin Bróðurhöndin, V-Eyjafjöllum kr. 100.000,-
Björgunarsveitin Lífgjöf, Álftaveri kr. 100.000,-
Áður en til styrkveitingarinnar kom fundaði formaður almannavarnarnefndarinnar, sem jafnframt er lögreglustjóri, ásamt yfirlögregluþjóni og formanni Landsbjargar með stjórn hverrar björgunarsveitar og fór yfir stöðu mála með þeim, styrk þeirra og getu. Ljóst er að björgunarsveitir í umdæminu eru öflugar og vel færar til að sinna sínum störfum þegar á reynir.
Hellu 11. febrúar 2010
Almannavarnarnefnd Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu.