30 Október 2009 12:00
Í nýrri tölfræðiskýrslu ríkislögreglustjóra um afbrot kemur fram að á árinu 2008 voru skráð 75.246 brot á öllu landinu. Þar af voru 14.578 hegningarlagabrot, 56.401 umferðarlagabrot og 4.267 sérrefsilagabrot. Hegningarlagabrotum fjölgaði um 12% milli ára en umferðarlagabrotum fækkaði um tæp 6% og sérrefsilagabrotum um 21%. Auðgunarbrotin voru 8.029 sem er 30% aukning frá árinu áður. Innbrot jukust um 20% milli ára og þjófnaðir um 40%. Flest innbrot voru framin frá hádegi til kl. 18:00 eða 31%. Frá kl. 06:00 til kl. 18:00 voru framin 57% allra innbrota.
Ekkert manndráp kom til kasta lögreglu en þó lést einn einstaklingur af áverkum sem hann hlaut vegna afleiðinga af stórfelldri líkamsárás. Flestar slíkar árásir voru utandyra eða á skemmti- og veitingastöðum. Tilkynnt var um 368 kynferðisbrot sem er 5% fjölgun milli ára.
Umferðarlagabrot uppgötvast að stórum hluta vegna frumkvæðisvinnu lögreglunnar. Sama má segja um sérrefsislagabrotin en undir þau falla fíkniefnabrot og brot á áfengislögum. Þrátt fyrir fækkun umferðarlagabrota fjölgaði hraðakstursbrotum en þau voru rúmlega 39.000 og hafa aldrei verið fleiri. Þótt fíkniefnabrotum hafi fækkað um 14% hefur aldrei verið lagt hald á jafn mikið magn fíkniefna eða 233 kg af hassi, 10,7 kg af amfetamíni, 3.885 e-töflur, 7,7 kg af kókaíni og 6,6 kg af maríhúana.
Skýrslan verður gefin út í prentuðu formi á næstunni en vefútgáfa er aðgengileg hér og á vef ríkislögreglustjóra www.rls.is undir liðnum Tölfræði/rannsóknir. Prentvæn útgáfa