23 September 2009 12:00
Skipulögð glæpastarfsemi er raunveruleiki sem stjórnvöld á Íslandi og almenningur allur verður að horfast í augu við; þetta er veruleiki sem kallar á viðbrögð af margvíslegum toga og síðast en ekki síst er hér um að ræða þróun sem sjálfsagt og mikilvægt er að upplýsa fólkið í landinu um, sagði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri í ræðu er hann flutti á málþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, á þriðjudag.
Umræðuefni málþingsins var Er skipulögð glæpastarfsemi raunveruleg ógn á Íslandi?. Haraldur kvað það vera niðurstöðu sína að þessari spurningu bæri að svara játandi. Á síðustu árum hefði orðið algjör grundvallarbreyting á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Hún væri betur skipulögð en áður auk þess nýir aðilar létu nú til sín taka á þessum vettvangi.
Aukin almannahætta
Ríkislögreglustjóri sagði að við þetta bættist síðan hrun íslenska fjármálakerfisins og sú efnahagskreppa sem hér ríkir nú um stundir. Áhrif þessara algjöru umskipta mætti nú þegar greina á sviði skipulagðrar glæpastarfsemi og innan lögreglunnar teldu menn víst að þau áhrif væru langt í frá öll komin fram. Þessi þróun skapar aukna almannahættu og reynir mjög á lögregluna í landinu. Á tímum ólgu, óvissu og niðurskurðar stendur íslenska lögreglan frammi fyrir flóknari og erfiðari verkefnum en áður, sagði Haraldur.
Ríkislögreglustjóri kom víða í ræðu sinni; ræddi m.a. innflutning og dreifingu fíkniefna og þá öldu skipulagðra innbrota og þjófnaða sem riðið hefur yfir, einkum á höfuðborgarsvæðinu , að undanförnu. Þá ræddi Haraldur um vaxandi umsvif vélhjólasamtakanna Hells Angels hér á landi og áréttaði þá skoðun sína að bregðast bæri við þeirri ógn af festu.
Mikilvægi alþjóðasamvinnu
Haraldur fjallaði einnig um greiningardeild ríkislögreglustjóra, alþjóðavæðingu skipulagðrar glæpastarfsemi, mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu á sviði löggæslunnar og áhrif efnahagshrunsins á Íslandi í ræðu sinni.
Mikilvægi alþjóðasamvinnu á sviði löggæslu fer vaxandi með degi hverjum. Þátttaka í slíku samstarfi krefst sérþekkingar, hún krefst mannafla og, já, hún kostar peninga. Ætli Íslendingar sér að takast á við þann vaxandi vanda sem skipulögð glæpastarfsemi hefur í för með sér verður það aldrei gert án traustrar og víðtækrar samvinnu við erlendar löggæslustofnanir. Tal um annað er í besta falli til marks um þekkingarskort í því versta birtingarmynd sjálfsblekkingar, sagði Haraldur Johannessen m.a. í ræðu sinni sem nálgast má hér.