11 Júlí 2009 12:00
Lögreglan á Selfossi fer með rannsókn á brunanum sem varð í gær í Hótel Valhöll á Þingvöllum. Lögregluvakt hefur verið á svæðinu og verður áfram í dag og á morgun. Skýrslur hafa verið teknar af nokkrum starfsmönnum hótelsins. Hreinsunarstarf er hafið. Á mánudag mun fara fram vettvangsrannsókn. Rannsóknarlögreglumenn tæknideildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir til aðstoðar og komu þeir á brunavettvang strax. Þeir munu vinna við frekari vettvangsrannsókn á mánudag. Fyrir liggur að margir aðilar hafa orðið fyrir tjóni í brunanum og þá mest húseigandi og rekstraraðili. Starfsmenn og gestir misstu persónulega muni sína. Búnaður sem var á vegum fyrirtækjanna Símans og Mílu, sem var á og við hótelið, skemmdist í brunanum. Lögreglan á Selfossi vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem lögðu lið við slökkvistarfið sem og fjölmiðlafólki sem sýndi mikla tillitsemi og aðgát á brunavettvangi. Að lokum vill lögreglan beina því til fólks sem fer til Þingvalla í dag og á morgun að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá brunarústunum leggi það leið sína að þeim.