27 Júlí 2009 12:00
Lögreglan á Hvolsvelli fékk tilkynningu um utanvegaakstur á erlendri bifreið á Sprengisandsleið í gær. Tilkynnandi sagði bifreiðina á leið norður Sprengisand. Haft var samband við hálendisvakt Landsbjargar sem fann bifreiðina og fylgdi henni til byggða. Þar tóku lögreglumenn frá Akureyri á móti bifreiðinni og færðu ökumann hennar á lögreglustöðina á Akureyri þar sem honum var gert að greiða sekt, sem var á annað hundrað þúsund, vegna athæfisins. Ökumaðurinn var ferðamaður á fertugsaldri og greiddi hann sektina.
Lögreglan vill hvetja þá sem vitni verða að utanvegaakstri til þess að taka ljósmyndir af gerendum og vettvangi og tilkynna til lögreglunnar í því umdæmi sem það er staðsett í.