25 Júní 2009 12:00
Ríkislögreglustjóri undirritaði í dag tvo samstarfssamninga um vernd barna gegn ofbeldi á Netinu. Annars vegar milli Barnaheilla og ríkislögreglustjóra um að ríkislögreglustjóri taki yfir umsjón og forvinnslu ábendinga sem berast í gegnum ábendingalínu Barnaheilla um ætluð brot gegn börnum og ólöglegt efni sem oft krefst lögreglurannsóknar. Hins vegar var undirritað samkomulag milli Barnaheilla, ríkislögreglustjóra og Heimilis og skóla um netöryggi og forvarnir á því sviði.
Heimili og skóli eru samstarfaðili ESB um svokallað SAFT verkefni sem er hluti af Safer Internet Action Plan, en svo heitir aðgerðaráætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun. Barnaheill og SAFT, verkefni Heimilis og skóla, mun áfram sinna fræðslu og upplýsa almenning, lögreglu, löggjafann, netþjónustuaðila, barnaverndaryfirvöld og fleiri, um mikilvægi þess að vernda börn gegn kynferðislegu ofbeldi á Netinu. Samningsaðilar munu m.a. birta upplýsingar um forvarnir á sviði kynferðisofbeldis gegn börnum á veraldarvefnum. Einnig að koma fyrir fræðsluefni á heimasíðum sínum fyrir foreldra um örugga og ábyrga netnotkun svo þeir verði betur í stakk búnir til að uppfræða börnin um hættur á veraldarvefnum og hvernig hægt sé að takmarka aðgang að slíkum heimasíðum.
Ríkislögreglustjóri starfrækir ábendingarlínu lögreglunnar á veraldarvefnum þar sem almenningur getur tilkynnt til lögreglu um heimasíður sem innihalda ætlað kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, http://abending.logreglan.is/
Þá mun ríkislögreglustjóri veita samstarfsaðilum tölfræðiupplýsingar til notkunar í alþjóðasamstarfi samtakanna, meðal annars um fjölda tilkynninga, hýsingarland og um hvers konar brot gegn börnum er að ræða.