5 Desember 2008 12:00
Um 200 björgunarsveitarmenn og sjálfboðaliðar viðsvegar að á landinu hafa, án árangurs, leitað frá því í birtingu í morgun að Trausta Gunnarssyni sem týndist við rjúpnaveiðar á Skáldabúðaheiði þann 29. nóvember s.l. Aðstæður til leitar voru góðar í morgun en versnuðu vegna snjómuggu þegar kom fram yfir hádegið. Áhersla var lögð á leit á þeim svæðum sem upp komu eftir greiningu á þeirri leit sem þegar hafði farið fram dagana á undan. Göngumenn voru flestir í leitarhópnum í dag en einnig voru leitarmenn á hestum, fjórhjólum og torfæruhjólum. Einn maður slasaðist þegar hann datt og er talið að hann sé úlnliðsbrotinn.
Formlegri leit er nú hætt en áfram verður fylgst með aðstæðum og farið til leitar eftir því sem þær þykja gefa tilefni til. Engin von er talin til þess að Trausti geti verið á lífi. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjú uppkomin börn. Aðstandendur hans vilja koma á framfæri þakklæti sínu til leitarmanna fyrir þeirra óeigingjörnu vinnu við erfiðar aðstæður.