28 Nóvember 2008 12:00
Lögreglan á Selfossi krafðist í dag framlengingar á gæsluvarðhaldi yfir einum fjórmenningana sem handteknir voru eftir að tilkynnt var um að maður hefði látist í sumarbústað í Grímsnesi. Dómari tók sér frest til hádegis á morgun til að taka afstöðu til kröfunnar.
Tildrög málsins eru þau að að morgni 8. nóvember 2008 tilkynntu húsráðendur í sumarbústað í Oddsholti í Grímsnesi um að maður sem var gestkomandi hjá þeim væri látinn. Lögregla og sjúkralið fór þegar á vettvang og hittu fyrir húsráðanda þar og sambýliskonu hans ásamt vinkonu þeirra og vísuðu þau á hinn látna í sófa í stofu í húsinu. Áverkar voru á höfði hins látna og þóttu skýringar þeirra sem á staðnum voru á þeim ótrúverðugar. Þau voru öll handtekin og færð á lögreglustöð á Selfossi. Fljótlega kom í ljós að fyrr um morguninn hafði eiginmaður vinkonunnar farið úr húsinu, akandi til Reykjavíkur, ásamt um árs gömlu barni þeirra hjóna. Hann var handtekinn síðar um daginn í Reykjavík.
Öll hin handteknu voru úrskurðuð í gæsluvarðhald til 28. nóvember en þrjú þeirra hafa þegar verið látin laus, önnur konan hinn 16. nóvember s.l, hin hinn 21. nóvember og karlmaður var látinn laus í gær. Öll hafa þau verið úrskurðuð í farbann til 18. febrúar n.k.
Að rannsókninni hafa, auk lögreglu á Selfossi, komið réttarmeinafræðingur frá Rannsóknarstofu Háskólans, lögreglumenn við tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins og sérfræðingar þeirra og lögreglumenn í tölvurannsóknardeild sama embættis. Rannsóknin hefur verið mjög viðamikil og falið m.a. í sér samanburð á sönnunargögnum sem aflað var á vettvangi og áverkum hins látna sem og framburði grunaðra. Krufning hefur leitt í ljós að hann lést af blæðingum í heila eftir að hafa hlotið þungt höfuðhögg. Vísbendingar eru um að sparkað hafi verið í höfuð hans og að hann hafi látist mjög skömmu eftir að það var gert. Fær það stoð í ummerkjum á höfði hins látna sem og rannsókn á blóðferlum á vettvangi og á sýnum sem tekin voru til rannsóknar úr heila hans. Þau sýni hefur þurft að meðhöndla í allt að 16 daga áður en unnt væri að komast að þeim niðurstöðum sem taka þeirra gaf.
Atvikið í sumarbústaðnum var sviðsett eftir fyrirsögn karlmannanna tveggja , hvors í sínu lagi, til að staðreyna framburð þeirra. Staðfest er að allir málsaðilar hafa verið verulega ölvaðir þegar atvikið átti sér stað en efnt hafði verið til veislu þar seinni part dags deginum áður og komu hjónin með barn sitt þangað ásamt hinum látna. Ekki er talið að aðrir hafi verið í húsinu.
Brotin sem til rannsóknar eru eru annarsvegar gegn 211. gr. almennra hegningalaga, þ.e.a.s. manndráp og hinsvegar gegn 220. gr. og 221. gr. sömu laga, að koma ekki deyjandi manni til hjálpar.
Hinn látni hét Almis Keraminas og var fæddur árið 1970 í Litháen. Hann var búsettur í Reykjavík.