4 Ágúst 2008 12:00
Erilsamt var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í nótt og gistu nokkrir fangageymslu vegna ölvunar og ólæta í Herjólfsdal. Eitt fíkniefnamál komu upp í gærkvöldi, en um var að ræða 6 grömm af amfetamíni sem fannst á aðila sem var að koma til Eyja.
Samtals komu upp 17 fíkniefnamál á hátíðinni frá fimmtudegi en eins og komið hefur fram var mikil áhersla lögð á að hafa eftirlit með þessum málaflokki, er það mikill viðsnúningur frá árinu 2005 þegar upp komu á fimmta tug mála. Nú var um að ræða amfetamín, kókaín, kannabis og sýra, en efnin fundust bæði á fólki en einnig á víðavangi þar sem neytendur höfðu kastað þeim frá sér, er þeir urðu varir við lögreglu.
Sex líkamsárásarmál voru kærð til lögreglunnar yfir hátíðina, öll minniháttar. Nokkur þjófnaðarmál komu upp var þar aðallega um að ræða að greipar voru látnar sópa úr tjöldum hátíðargesta. Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur ekki fengið kæru eða vitneskju um kynferðisbrot á hátíðinni þegar þetta er ritað.
Flug hófst að nýju um hádegi í dag og komin er loftbrú á milli Vestmannaeyja og Bakka og til Reykjavíkur. Herjólfur mun fara þrjár ferðir á sólarhring næstu daga til að flytja gesti til síns heima.
Á samráðsfundi lögreglustjóra með fulltrúum gæslu, mótshaldara og sálgæslu kom fram að þjóðhátíð 2008 hafi gengið vel og fá mál komið upp miðað við að hér var um stærstu hátíð sem haldin hefur verið. Áætlað er að um eða yfir þrettán þúsund manns hafi verið á hátíðarsvæðinu í brekkusöngum í gærkvöldi og að honum loknum voru tendruð 134 rauð blys sem lýstu upp Herjólfsdal, eitt fyrir hvert ár sem þjóðhátíð hefur verið haldin.