2 Júní 2008 12:00

Í dag framkvæmdu lögreglufulltrúar alþjóðadeildar ríkislögreglustjórans framsal á pólskum karlmanni. Maðurinn, Przemyslaw Plank, er grunaður um mannrán, morð og aðild að skipulögðum glæpasamtökum í Póllandi.

Plank kom við sögu hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og eftir athugun alþjóðadeildar ríkislögreglustjórans kom í ljós að hann var eftirlýstur í Póllandi en alþjóðleg eftirlýsing hafði ekki verið gefin út.

Plank var handtekinn þann 14. apríl sl. og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Dómsmálaráðherra ákvað að verða við framsalsbeiðni pólskra yfirvalda þann 28. apríl sl. og Hæstiréttur Íslands staðfesti þá ákvörðun þann 19. maí sl.

Framsalið fór fram á Keflavíkurflugvelli þar sem þrír pólskir lögreglumenn tóku fangann í sína vörslu og fluttu áleiðis til Póllands.

Ríkislögreglustjórinn

2. júní 2008