8 Apríl 2008 12:00
Klukkan 11:22 í morgun barst tilkynning um alvarlegt umferðarslys á Eyrarbakkavegi skammt neðan við Selfoss. Lögreglu- sjúkra- og björgunarlið var sent á vettvang. Áreksturinn varð með þeim hætti að jeppling var ekið af Kaldaðarnesvegi inn á Eyrarbakkaveg í veg fyrir vörubifreið sem ekið var til suðurs. Ökumaður jepplingsins var úrskurðaður látinn á vettvangi eftir að lífgunartilraunir báru ekki árangur. Þyrla var ræst út en afturkölluð. Ökumaður vörubifreiðarinnar slasaðist ekki en hlaut viðeigandi aðhlynningu. Ökumennirnir voru einir í ökutækjum sínum. Eyrarbakkavegi var lokað eftir slysið á meðan vettvangsrannsókn fór fram og hreinsun. Bæði ökutækin voru mikið skemmd og óökufær eftir. Rannsókn fer fram á slysinu og aðdraganda þess. Fulltrúi Rannsóknarnefndar umferðarslysa kom á vettvang til rannsóknar. Lögreglan lýsir eftir vitnum að áreksturinn. Sími lögreglu er 480 1010. Að svo stöddu er ekki hægt að greina frá nafni hins látna.