7 Desember 2007 12:00
Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórar einstakra lögregluumdæma undirrituðu í dag, 7. desember 2007, samninga um árangursstjórnun.
Samningar lögregluembættanna 15 eru mismunandi og taka mið af stöðumati hvers embættis sem lögreglustjórar unnu fyrr á árinu. Í stöðumatinu var gerð ítarleg greining á starfsemi lögregluembættanna. Árangursstjórnunarsamningarnir taka mið af áherslum dóms- og kirkjumálaráðherra er fram koma í löggæsluáætlun 2007-2011 en þar er langtímaáætlun stjórnvalda á sviði löggæslu sett fram.
Með tilkomu árangursstjórnunarsamninga verða löggæslustörf markvissari, árangur af þeim mælanlegur og ríkislögreglustjóra falin aukin viðfangsefni á sviði stjórnsýslu. Lögregluembættin munu skila fjögurra ára framtíðaráætlun til ríkislögreglustjóra fyrir árslok 2007. Þá mun ríkislögreglustjóri leiðbeina embættunum og taka afstöðu til markmiða, mælikvarða og forgangsröðunar verkefna sem fram koma í langtímaáætlun hvers lögregluembættis. Árlega munu ríkislögreglustjóri og einstakir lögreglustjórar taka sameiginlega afstöðu til árangurs af starfsemi lögregluembættisins. Auk þess gerir ríkislögreglustjóri ár hvert grein fyrir árangri af starfi lögreglustjóranna á árinu í ársskýrslu embættisins til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri telur að með þessum samningum hafi verið stigið mikilvægt skref til markvissari og öflugri löggæslu í landinu.
Ríkislögreglustjórinn, 7. desember 2007