5 Nóvember 2007 12:00

Aðgerð lögregluyfirvalda vegna komu norrænna félaga í vélhjólasamtökunum Hell’s Angels til landsins er lokið. Aðgerðin var mjög viðamikil og gangur hennar allur samkvæmt áætlun.

Átta norrænum félögum í samtökunum var á föstudag, 2. nóvember, synjað um leyfi til landgöngu á grundvelli c liðar 42 gr. útlendingalaga nr. 96, 2002. Norrænu félagarnir veittu enga mótspyrnu er för þeirra var stöðvuð. Mennirnir héldu allir til Ósló á laugardag í fylgd íslenskra lögregluþjóna.

Aðgerð lögregluyfirvalda var ákveðin í kjölfar þess að greiningardeild embættis ríkislögreglustjóra bárust upplýsingar erlendis frá þess efnis að fjölda félaga í Hell’s Angels hefði verið stefnt til landsins í því skyni að fagna 11 ára afmæli íslenska vélhjólaklúbbsins Fafner MC-Iceland. Hell’s Angels halda uppi skipulagðri glæpastarfsemi víða um heim og margir félagar í samtökunum hafa hlotið refsidóma fyrir alvarlega glæpi.

Allt frá 2002 er félagar í Hell’s Angels reyndu fyrst að komast inn í landið hefur þeirri stefnu verið fylgt á Íslandi að neita beri félögum í vélhjólasamtökum, sem vitað er að halda uppi skipulagðri glæpastarfsemi, um leyfi til landgöngu. Viðbrögð lögreglu voru nú sem fyrr ákveðin á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og því mati að koma félaga í Hell’s Angels til Íslands og viðleitni samtakanna til að ná fótfestu hér á landi fæli í sér alvarlega ógn við samfélag og allsherjarreglu.

Embætti ríkislögreglustjóra hafði yfirstjórn aðgerðarinnar. Framkvæmd hennar var í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra tóku einnig þátt í henni. Samstarf þessara aðila, sem var náið og umfangsmikið, gekk afar vel fyrir sig og skilaði tilætluðum árangri. Hið sama er að segja um samstarf við aðila erlendis, sem leitað var til vegna aðgerðarinnar.