31 Október 2007 12:00
Í fréttum ríkissjónvarpsins þann 24. október sl. var viðtal við Karl Steinar Guðnason, forstjóra Tryggingastofnunar. Hélt hann þar ýmsu fram um vinnubrögð lögreglu við rannsóknir mála sem rétt er að gera athugasemdir við.
Hann hélt því fram að tannlæknir sem kærður var til lögreglu á síðasta ári hefði verið grunaður um svik í fjórtán ár, en erfiðlega hefði reynst að mjaka málinu áfram hjá lögreglunni. Þessu er vísað algerlega á bug. Kæra var ekki lögð fram af hálfu TR fyrr en seint í september 2006. Kæran barst til ríkislögreglustjóra en málið var fljótlega sent staðarlögreglu þar sem það þótti þannig vaxið að eðlilegt væri að það yrði rannsakað þar. Þar sætir það nú rannsókn. Málið hefur því hlotið eðlilega meðferð hjá lögreglu eftir að kæra barst og það að umræddur tannlæknir var ekki kærður fyrr til lögreglu hlýtur að vera algerlega á ábyrgð TR.
Forstjórinn hélt því einnig fram að það væri við það ákveðin fælni hjá lögreglu að rannsaka flókin mál, hugsanlega vegna skorts á þekkingu. Þetta er einnig alrangt, enda var ekki bent á nein dæmi þessari fullyrðingu til stuðnings. Flókin mál sæta að sjálfsögðu rannsókn eins og önnur og ef sérþekkingu þarf til vegna rannsókna þeirra er leitað aðstoðar sérfræðinga á viðkomandi sviði hverju sinni. Lögreglan hræðist því alls ekki flókin mál.
Þá fór forstjórinn yfir það að tvö mál frá TR sættu nú rannsókn hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans og fann að þeim tíma sem tekið hefur að rannsaka þau.
Annað málið kærði TR í lok júní og er enn verið að afla gagna í málið, en þau voru ófullnægjandi þegar kæra barst. Er rannsókn þess því á frumstigi og engan veginn hægt að gagnrýna embættið vegna meðferðar þess. Rannsókn hins málsins, sem varðar meint fjársvik fyrrum starfsmanns TR og fjölmargra annarra aðila er hins vegar á lokastigi, en það mál var kært í júní 2006. Rannsókn þess hefur verið feykilega umfangsmikil. Á þriðja tug manna hafa hlotið réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins og málsskjöl fylla nú um 30 möppur. Hefur rannsóknin því að sjálfsögðu verið tímafrek. Og þótt alltaf sé hægt að gera betur er hér fullyrt að þeir lögreglumenn sem sinna rannsóknum mála hjá efnahagsbrotadeildinni standa sig einkar vel í starfi.
Frekari upplýsingar gefur Björn Þorvaldsson settur saksóknari.