11 Febrúar 2021 14:57

Embætti ríkislögreglustjóra hefur nú birt niðurstöður spurningalistakönnunar þar sem spurt er um reynslu landsmanna af afbrotum og öryggistilfinningu íbúa. Könnunin var gerð vorið 2020, í úrtaki voru 4000 landsmenn 18 ára og eldri, og svarhlutfall var 57%.

Niðurstöður sýna að 46% eru frekar eða mjög örugg einir á ferli í miðborg Reykjavíkur þegar myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar. Það er hærra hlutfall en síðustu ár, en hlutfallið var um 40-41% í könnunum 2018 og 2019. Áhugavert er að velta fyrir sér hvort áhrif heimsfaraldurs Covid-19, og samkomutakmarkanir því tengdu, sé að hafa áhrif, að ástæðan sé mögulega meiri samstaða íbúa, eða liggi í því að færri fari í miðbæinn vegna takmarkana sem voru í gildi.

Í könnuninn var einnig spurt um reynslu íbúa af nokkrum tegundum afbrota. Niðurstöður sýndu að um 4% íbúa verða fyrir eða fá hótun um kynferðislega myndbirtingu, sem er aukning frá árunum áður. 4,4% karla höfðu orðið fyrir hótun eða myndbirtingu og 3,8% kvenna, en munur milli kynja var ekki marktækur. Rúmur þriðjungur taldi að myndbirtingin hefði haft mjög mikil áhrif á sig en samt sem áður tilkynnti enginn aðspurðra til lögreglu.

 

Varðst þú fyrir því árið 2019 að einhver deildi án þíns leyfis kynferðislegu myndefni af þér sem olli þér ama?

Þá var einnig spurt um ofbeldi af hendi maka/fyrrum maka, og hafði hærra hlutfall orðið fyrir „einhvers konar ofbeldi“ af hendi maka eða fyrrum maka en í könnunum síðustu ára eða 7,1%. Hlutfall þeirra sem varð fyrir „ógnun, hótun, líkamlegu og eða kynferðislegu ofbeldi“ var hins vegar svipað og fyrri ár og lægra en í könnun 2019 eða um 2%. Þá bjó 51% aðspurðra enn við þessar aðstæður ofbeldis, sem er hærra hlutfall en síðustu ár. Umhugsunarvert er að velta fyrir sé hvort einstaklingar komist síður úr aðstæðunum en áður vegna ýmissa afleiðinga sem heimsfaraldur Covid-19 hefur haft, eins og aukið atvinnuleysi og meiri óvissa um afkomu.

Þá urðu 6% íbúa fyrir eltihrelli og algengast var að sá sem beitti slíku væri „kunningi, yfirmaður eða vinnufélagi“, eða 25%.
Í könnuninni var einnig spurt um viðhorf til þjónustu og starfa lögreglu, en Félagsvísindastofnun tók saman þær niðurstöður í sér skýrslu. Þar kom m.a. fram að 98% landsmanna voru mjög eða frekar hlynnt að stjórnvöld legðu áherslu á smitrakningu, og 95% mjög/frekar hlynnt því að sett væri á samkomubann.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér.
Skýrsla Félagsvísindastofnunar má sjá hér.