22 Desember 2020 22:05
Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi:
- Áfram hættustig á Seyðisfirði og rýmingar að hluta í gildi vegna skriðuhættu.
- Frekari afléttun á rýmingum.
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa nú farið yfir gögn sem safnað var í dag og síðustu daga. Mælingar hafa verið endurteknar á upptakasvæðum skriðufalla síðustu daga og hefur hreyfing minnkað mikið. Auk þess sýna mælingar á grunnvatni að vatnsþrýstingur í jarðlögum hefur minnkað. Lítil úrkoma hefur verið síðustu daga og kalt í veðri sem eykur stöðugleika.
(Athugið) Spáð hlýindum frá hádegi á aðfangadag og fram á jóladag. Vegna þess er ekki talið óhætt að opna aftur svæði þar sem skriður hafa fallið síðustu daga eða næst hlíðinni. Þar er því áfram rýming í gildi (rauð svæði á meðfylgjandi korti).
Aðstæður í Botnabrún voru skoðaðar sérstaklega í dag og er það mat Veðurstofunnar að óverulegar líkur eru á skriðu sem skapað geti hættu neðan Múlavegar (gult svæði á korti sem birt var í dag). Fólki er því heimilt að snúa aftur heim í þau hús.
Þegar þessi tilkynning er send út, þá er í gildi rýming á því svæði sem er litað rautt á meðfylgjandi korti og er sú ákvörðun í gildi til 27. desember. Eftir það verða aðstæður metnar á ný og tekin ákvörðun um það hvort rýming skuli standa lengur á einhverjum reitum.
Ef fólk er í vafa um það hvort hús eru innan eða utan rýmingsvæðis, þá eru allar útlínur húsa teiknaðar inná kortið og því hægt að sjá hvorum megin þau lenda. Starfsfólk í þjónustumiðstöð almannavarna getur einnig aðstoðað fólk til þess að sjá hvort hús eru innan eða utan rýmingasvæða.
Sími þjónustumiðstöðvar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra á Seyðisfirði: 839 9931.