17 Desember 2020 21:56
Hættustig almannavarna er áfram í gildi á Seyðisfirði vegna skriðuhættu. Staðan er metin óbreytt frá því í dag og rýming í gildi. Einnig er óvissustig í gildi á Austurlandi af sömu ástæðu.
Þrjú hlaup urðu í Búðará í dag auk aurskriðuflóðs við Selsstaði sem lokaði vegi. Einnig féll skriða utan Dagmálalækjar úr Botnabrún. Lítil skriða féll í Eskifirði við Högnastaði, en aðstæður þar kalla ekki á sérstakan viðbúnað. Enn bætir í úrkomuspár og mun rigna talsvert í kvöld og með hléum fram á sunnudag. Hlíðin ofan Seyðisfjarðar er enn óstöðug og má búast við frekari skriðuföllum samhliða úrkomunni.
Hreinsunarstarf á Seyðisfirði gekk vel í dag og var ástand íbúðarhúsa kannað. Tjón á húsnæði er að koma betur í ljós og hefur vatn og aur komist inn í nokkur þeirra. Mikill samhugur er í samfélaginu og gott og vel unnið starf verið innt af hendi.
Veðurstofan mælir með áframhaldandi rýmingu á húsum á Seyðisfirði samkvæmt meðfylgjandi korti. Á kortinu eru einnig merkt varúðarsvæði þar sem mælt er með því að íbúar hafi varann á vegna hættu á aurskriðum. Mælt er með því að fólk dveljist ekki í eða gisti í kjöllurum eða á jarðhæð í herbergjum sem snúa upp í fjallshlíðina og gæti varúðar þegar farið er um utanhúss í grennd við þessa árfarvegi.
Vegna sóttvarnasjónarmiða er það áréttað í framhaldi af tilkynningu aðgerðarstjórnar á Austurlandi í dag að engin óviðeigandi umferð sé til Seyðisfjarðar á meðan hættustig er í gildi vegna skriðufalla. Það er gert til að halda sóttvarnir og koma í veg fyrir möguleg COVID smit. Þannig eru t.d. ferðamenn, fréttamenn, tilkallaðir sérfræðingar og fleiri sem hyggjast halda til Seyðisfjarðar meðan ástand þetta varir, beðnir að leita áður til lögreglunnar í síma 444 0600 eða á netfangið austurland@logreglan.is