9 Desember 2020 14:26
Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. nóvember – 5. desember, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.
Miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20.39 missti ökumaður á Strandvegi, á móts við Viðarrima, stjórn á bifreið sinni, sem snerist á veginum og hafnaði á ljósastaur. Hálka og þæfingur var á vettvangi. Ökumaður og þrír farþegar voru fluttir á slysadeild.
Þriðjudaginn 1. desember kl. 11.57 var vinnuvél (hjólaskóflu) ekið suður Kringlumýrarbraut, en undir Bústaðavegsbrú rakst skófluarmur hennar upp í brúargólfið. Armurinn var ekki niðri í akstursstöðu heldur það langt uppi að hann rakst upp undir brúnna svo skemmdir urðu á burðarvirki hennar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Í sömu mund og áreksturinn varð var fólksbifreið ekið fram úr vinnuvélinni, en á bifreiðina féllu steypumolar úr brúargólfinu og hlaust tjón af.
Föstudaginn 4. desember kl. 9.46 var ekið á hjólareiðmann við Laugavegi 96. Bifreiðinni var ekið vestur Laugaveg og hugðist ökumaður hennar beygja inn í húsasund að baklóð sem þarna er, en hjólreiðamaðurinn var á leið austur Laugaveg. Hann var dökklæddur, en með endurskin á jakka og bakpoka og hjól hans var með ljós að bæði framan og aftan. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 5. desember kl. 15.59 missti ökumaður á leið suður Hafnarfjarðarveg, við Kópavogslæk, stjórn á bifreið sinni, sem hafnaði á vegriði/ljósastaur og valt síðan á veginum. Hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.