8 Desember 2020 14:59
Hér gefur að líta vefútgáfu af ársskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2019, en PDF-skjal af skýrslunni var þegar til staðar á lögregluvefnum. Sem fyrr voru verkefnin ærin enda komu um 82 þúsund mál á borð embættisins árið 2019. Þau voru af öllu tagi, minni háttar aðstoð við borgarana, rannsóknir umfangsmikilla sakamála og allt þar á milli. Til marks um annríkið voru 250 brot skráð á hverjum sólarhring árið um kring, eða um 10 á hverri klukkustund. Umferðarlagabrot vógu þar mjög þungt, en þau voru um 100 á sólarhring, aðallega hraðakstursbrot. Hegningarlagabrot í umdæminu voru um 9.700 árið 2019, eða ámóta og árið á undan. Sérrefsilagabrot voru í kringum 4.000, en lítil breyting varð einnig á fjölda þeirra á milli ára. Flest brotanna voru fíkniefnabrot. Fjölgun tilkynninga um kynferðisbrot var áberandi, mest vegna tilkynninga um kynferðislega áreitni og vændiskaup.