30 Nóvember 2020 13:50
Einungis þrír ökumenn voru stöðvaðir í liðinni viku vegna of hraðs aksturs í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Einn var við Ingólfsfjall þar sem hraði er tekinn niður í 70 km/klst vegna vegaframkvæmda, annar við Þingborg þar sem hraði er tekinn niður í 70 km/klst á vegkaflanum en þar er vegtenging við leikskóla og skrifstofur og sá þriðji var austur við Hjörleifshöfða á 90 km/klst vegi.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að aka bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis. Einn þeirra ók bifreið sinni út af Þorlákshafnarvegi aðfaranótt 28. nóvember og valt bifreiðin utan vegar. Þrír farþegar voru í bílnum og eru allir slasaðir en tveir þeirra voru útskrifaðir af sjúkrastofnun að skoðun lokinni. Ökumaðurinn var talinn lítið eða ómeiddur og fannst í nokkurri fjarlægð frá vettvangi og gaf þá skýringu við yfirheyrslu daginn eftir að hann hafi farið af stað til að sækja aðstoð. Hann kannaðist við að hafa ekið bifreiðinni og að hafa ekið utan í bifreið á Stokkseyri í ferð sinni um Árnessýslu áður en hann ók út af Þorlákshafnarvegi. Eigandi þeirrar bifreiðar hefur ekki gefið sig fram og því væri gott að heyra frá viðkomandi hið fyrsta.
Þann 23. nóvember var ökumaður stöðvaður á Tryggvagötu á Selfossi grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Fíkniefnapróf sem hann gekkst undir gaf jákvæða svörun á 5 ólögleg efni og er nú, líkt og venja er, beðið niðurstöðu á magnmælingum þessara efna í blóði hans. Maðurinn reyndist vera sviptur ökurétti vegna fyrri brota sinna.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.
21 stórt ökutæki var skoðað s.k. vegaskoðun i vikunni. Eitt þeirra boðað í skoðun hjá skoðunarstofu vegna athugasemda sem gerðar voru í vegaskoðuninni.
Eftirlit lögreglu á hóteli á Suðurlandi leiddi til kæru vegna meints brots á sóttvarnarlögum. Gesti hótelsins höfðu komið sér fyrir í sal hótelsins að sögn með „eigin veitingar“ og reyndist hólfun og fjöldatakmarkanir vera með þeim hætti að ekki yrði við unað. Málið fer til ákærusviðs til afgreiðslu.
Farnar voru eftirlitsferðir til að fylgjast með rjúpnaveiðimönnum. Nokkur fjöldi var á ferðinni en veiði almennt dræm og lítið af fugli.