3 Nóvember 2020 16:02
Rétt fyrir klukkan hálf tólf var aðgerðastjórn Almannavarnanefndar á Austurlandi virkjuð vegna mikillar veðurhæðar, ofankomu og hálku á Fagradal. Nokkrar bifreiðar höfðu þá farið út af sökum aðstæðna er mynduðust á skömmum tíma á vegarkaflanum frá Eyvindarárdal að norðanverðu og Grænafells að sunnan.
Óttast var um vegfarendur í ökutækjum sínum er höfðu endað utan vegar. Ein bifreiðanna var hópbifreið. Björgunarsveitir voru kallaðar til frá Egilsstöðum, Reyðarfirði og Norðfirði auk þess sem lögregla og sjúkralið fóru til aðstoðar. Þá var starfsmaður Vegagerðar við vinnu á Fagradal þegar veðrið skall á og veitti aðstoð.
Nokkurn tíma tók að komast að þeim sem lent höfðu í hrakningum en tókst að lokum. Einn vegfarandi varð fyrir minniháttar meiðslum af alls sjö er þurftu aðstoðar við. Sá slasaði fékk aðhlynningu á heilsugæslustöð Reyðarfjarðar. Aðgerðum lauk um klukkan eitt á hádegi.
Íbúar eru sem fyrr hvattir til að fylgjast vel með veðurspá sem er slæm allt fram á fimmtudag. Nokkuð hefur verið um foktjón í dag á Seyðisfirði og Reyðarfirði og björgunarsveitir að störfum. Mikilvægt er að tryggja lausamuni meðan veður gengur yfir og sýna varkárni.