6 Október 2020 17:27
Einn er í einangrun vegna smits á Austurlandi.
Aðgerðastjórn vekur athygli á þeim hertu sóttvarnarráðstöfunum sem settar hafa verið fyrir höfuðborgarsvæðið. Á sama tíma er ástand gott hér í fjórðungnum og verður vonandi áfram.
Almannavarnadeild RLS og sóttvarnalæknir (SVL) vara við ferðalögum til og frá höfuðborgarsvæðinu nema brýna nauðsyn beri til. Til mikils er að vinna eins og dæmin sanna og því tekur aðgerðastjórn undir með RLS og SVL og bendir á að hér berum við íbúar Austurlands líka ábyrgð með vísan meðal annars til viðburða sem við höfum skipulagt og kalla á ferðalög til eða frá höfuðborgarsvæðinu.
Hún áréttar mikilvægi þess að ítrustu sóttvarnir séu viðhafðar ef farið er til höfuðborgarsvæðisins, að gæta að og fylgja fjarlægðarreglu sem þar gildir og er tveir metrar, að grímunotkun, handþvotti og sprittnotkun.
Aðgerðastjórn vekur og athygli á að sóttvarnalæknir hefur hvatt íbúa af höfuðborgarsvæðinu til að halda sig mest heimavið meðan stormurinn geysar. Ekki þykir því ráð að fá gesti þaðan eins og sakir standa nema að vel yfirlögðu ráði og með öllum þeim varúðaráðstöfunum sem nauðsynlegar eru og tíundaðar sumar hér að ofan.
Fylgjum reglum, tölum saman og aðstoðum hvert annað við að komast heil í mark.