1 Febrúar 2007 12:00
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Karl Ragnars forstjóri Umferðarstofu og Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri kynntu í dag, 1. febrúar, nýja samstarfssamninga um sérstakt umferðareftirlit lögreglu og sjálfvirkt hraðaeftirlit.
Nýju samningarnir gera ráð fyrir að varið verði 218 milljónum króna til aukins umferðareftirlits á næstu tveimur árum. Fjármagninu verður varið í 11 nýja öndunarsýnamæla og meðfylgjandi tölvubúnað að andvirði um 16,5 milljóna króna.
Keypt verða 8 ný bifhjól með Eyewitness búnaði sem auðveldar lögreglumönnum að vera einir við störf. Einnig verður um 9 milljónum króna varið í kaup á ratsjártækjum með myndavélum fyrir núverandi lögreglubifhjól og um 27 milljónum til kaupa á slíkum tækjum fyrir lögreglubifreiðar. Mikilvægt er að auka bifhjólaeign lögreglunnar, enda hafa kannanir sýnt að árangur við eftirlit á bifhjólum er mun meiri en með bifreiðum.
Þá verður 16 sjálfvirkum hraðamyndavélum komið fyrir víðs vegar um landið og mun Vegagerðin fjármagna tæknilegan rekstur þeirra á samningstímanum. Jafnframt verður lögregluembættum úthlutað 125,5 milljónum til sérstakts umferðareftirlits og úrvinnslu sekta og tæknivinnu.